Hreyfingar eru svo fljótar að myndast, samfélagsmiðlar hjálpa til við hraðann. Þú hefur kannski ekki tíma til að mynda þér skoðun á málefninu því allt gerist svo hratt. Eða mynda sér bara fáir skoðun yfirhöfuð, eru þeir bara með? Ef þú ætlar að vera með verðuru að stökkva, ef þú gerir ekki eitthvað strax detturu út. Þú varst ekki með, ertu ekki með? Styðuru ekki þessa hreyfingu?

Ég fór ekki á Twitter í gær, ég sá þetta ekki á Facebook, ég las ekki Vísi, ég komst ekki á Instagram. Fokk, ég var ekki með. Ég þori ekki að vera á móti þessu. Það er eitthvað svona í gangi, er þetta hjarðhegðun? Að þú verðir að vera með? það þorir enginn að vera með aðra skoðun á hlutunum á hlutunum því það eru oft allir með sömu skoðunina á netmiðlum. Eða eru allir ósammála? Sammála um að vera ósammála, eða bara sammála? Kannski er maður bara alltaf að skoða sama fólkið eða er hraðinn svo mikill að þú nærð ekki að túlka allt rétt eða nærð ekki samhenginu.

Svo eru það upplýsingarnar, þú þarft að vera upplýstur – vita flest, skoða allt en fatta kannski minna. En það að vera upplýstur hefur margs konar merkingu. Hver er að afla upplýsinganna? Hver er að dreifa þeim? Undir hvaða kringumstæðum? Er meðhöndlun á efninu rétt? Er kannski of mikil hreyfing, meira upplýsingaflæði og allt of mikill hraði? Verða þessar upplýsingar þá ekki réttar? Eða er bara meira af þeim?

Eru þá kannski samskiptamiðlar að drepa alla rökrétta hugsun? Er það út af þeim sem við þorum ekki að gera hlutina eða er það öfugt? Þú setur þína skoðun á samfélagsmiðil, síðan er einhver hópur sem fílar það ekki og þá ertu tekinn af lífi. Í gamla daga höfðu menn tíma til að setjast niður, skrifa þetta upp, hugsa um það, ræða við annað fólk og jafnvel sofa á því. Það er mjög eðlileg leið til að mynda sér heilsteypta skoðuná hreyfingunni sem þú ert að fara að styðja eða ganga í.

Síðan er auðvitað fullt af fólki að segja sína skoðun sem veit í raun ekkert um málið. Það er kannski bara búið að mynda sér skoðun út frá því sem það var matað af, af einhverju öðru fólki en ekki út frá traustum heimildum. Þessi hræðsla við að missa af öllu ef maður er ekki með í umræðum, að fylgjast með upplýsingum, vera ekki nógu fyndin en samt fyndin, bara á réttu augnablikunum.

En svo er bara svo mikið í gangi að þér finnst þú ekki hafa tíma til að sjá allt. Þannig að oft kíkir maður ekki á fréttaveitur og samskiptamiðla í viku. Svo stendur while you were away og þá kemur pressan við að opna það allt og vera eftir á í öllu eða vísvitandi sleppa því og þar af leiðandi stuðla að sinni eigin vanþekkingu. En síðan á sama tíma, hverju er maður að missa af? Umræðum? Ef við tölum um Twitter þá eru margir ekki með það og hverju er þetta fólk þá að missa af? Hvaða umræða er þetta og af hverju þurfum við alltaf að ná öllum umræðum og vera alltaf inni í öllu? Stundum vill maður líka bara vera fyndinn og djóka og fá ógeðslega mörg fav. Eða er maður bara að tala við sjálfan sig þar og fólk er að fylgjast með því? Eru flestir í laumi á samskiptamiðlum, fylgjast bara með til að vera upplýstir og segja ekki neitt? Er þetta bara tíðarandinn? Hver er tíðar- andinn í dag, gerir maður sér grein fyrir hver hann er hverju sinni. Við veltum fyrir okkur hvernig má miðla öllum þessum hugmyndum yfir í Mænu. En passa sig að gera ekki grín, það má nefnilega ekki mocka.

Á allt að vera politically correct? Það má ekki segja neitt. En svo er kannski helmingurinn af fólkinu sammála þér sem er samt nú þegar búið að mynda sér skoðun en mótsvarið kemur og það fólk verður efins en hafði kannski, í raun aldrei tímann til að mynda sér sína eigin skoðun – út af hraðanum.

Það er svo mikið í gangi núna, það er alltaf einhver hreyfing í gangi. Sem er mjög áhugavert. En vantar ekki líka að fylgja þeim eftir, þetta verður alltaf eitthvað hype en síðan er enginn að fylgja þessu eftir. Eða er kannski nóg að verið sé að opna umræðuna? Við ættum að notfæra okkur þetta. Nota þennan ofsahraða sem við erum með í hreyfingunum. Bókstaflega.

Það fer allt í hringi – fer og kemur aftur, hringrás sem blandar öllu saman. Það er mikil vitundarvakning í gangi, allt að gerast og enn meiri hreyfing.

00/20